Innnes umboðsaðili Toblerone á Íslandi býður meðal annars upp á 100g, 200g og 360g Toblerone stykkin sem eru á myndinni.
150g Toblerone súkkulaðistykkið sem myndir hafa birst af í fjölmiðlum og mest gagngrýni hefur beinst að fæst eingöngu í Bretlandi.

Toblerone-neytendur voru niðurbrotnir eftir umdeildar breytingar sem ráðist var í fyrir skömmu þar sem meira bil er á milli bitanna. Breytingarnar koma til vegna aukins framleiðslukostnaðar að sögn framleiðandans, Mondelez International. Þessar breytingar ná ekki til Íslands, samkvæmt Innnesi, sem flytur súkkulaðið inn.

„Við flytjum inn 360 gramma Toblerone. Það sem deilurnar standa um er eingöngu selt í breskum lágverðsverslunum,“ segir Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Innnesi. Hann segir að breytingarnar sem hafa orðið á 360 gramma súkkulaðinu séu litlar en það var áður 400 grömm.

„Þetta súkkulaði sem deilurnar standa um kemur ekkert til Íslands. 360 gramma stykkið hefur aðeins rýrnað en það er óverulegt.“ Eftir breytingarnar er 400 gramma súkkulaðið nú 360 grömm og 170 gramma súkkulaðið 150 grömm, samkvæmt fréttum BBC. Málið var rætt á breska þinginu í gær þar sem þingmaðurinn Colin Beattie kallaði eftir aðgerðum frá forsætisráðherranum, Theresu May. Sagði þingmaðurinn að þetta væri bein afleiðing af Brexit. „Þetta er ein birtingarmynd af Brexit. Ég kalla eftir aðgerðum frá breskum stjórnvöldum gegn þessum breytingum,“sagði Beattie á þinginu. May var ekki búin að svara tillögu þingmannsins.

„Íslenskir Toblerone-aðdáendur geta andað léttar og fá sitt Toblerone. Þau stykki sem við erum að selja hafa ekki orðið fyrir miklum breytingum.“

Capture