Toblerone brúðarterta með Daim búðingi 2014-10-15T05:02:29+00:00

Project Description

Toblerone brúðarterta með Daim búðingi

Innihald
2 hvítir svampbotnar:
4 egg
200 g sykur
70 g hveiti
70 g kartöflumjöl
1 tsk. lyftiduft

Daim-búðingur:
3 matarlímsblöð
2 eggjarauður
3 msk. sykur
1 tsk. sítrónusafi
2 eggjahvítur, stífþeyttar
2 dl rjómi, þeyttur
100 g Daim-súkkulaði, grófsaxað

Skreyting:
1 l rjómi
250 g hvítt Toblerone
ferskir ávextir

2 hvítir svampbotnar:
Þeytið eggin og sykurinn vel saman og sáldrið síðan hveiti, kartöflumjöli og lyftidufti varlega saman við. Setjið í tvö vel smurð, lausbotna tertumót, 24 sm í þvermál, og bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 15 mínútur við 180°C.

Daim-búðingur:
Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn í 5 mínútur. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Hellið vatninu af matarlímsblöðunum og bræðið þau í sítrónusafanum yfir vatnsbaði. Kælið lítillega og hellið rólega saman við eggjablönduna, í mjórri bunu. Kælið búðinginn aðeins og blandið síðan stífþeyttum eggjahvítunum og þeyttum rjómanum gætilega saman við ásamt mulda Daim-súkkulaðinu.
Setjið Daim-búðingin á milli tertubotnanna og kælið þar til hann er orðinn vel stífur.

Skreyting:
Setjið 1 dl af rjóma í pott og hitið að suðu. Takið pottinn af hellunni, setjið 2 hvít Toblerone-súkkulaðistykki 100g hvort út í og látið þau bráðna í rjómanum. Smyrjið blöndunni síðan ofan á tertuna.
Þeytið 1/2 lítra af rjóma og sprautið honum utan á tertuna.
Bræðið Toblerone-súkkulaði yfir vatnsbaði og smyrjið því með pensli á bökunarpappír. Kælið. Raðið Tobleronesúkkulaðinu utan á kökuna og skreytið með ferskum ávöxtum.
Þessi uppskrift miðast við miðkökuna á myndinni. Til þess að baka efri kökuna er uppskriftin helminguð og deigið bakað í tveimur tertumótum sem eru 20 sm í þvermál. Til þess að baka neðri kökuna er uppskriftin tvöfölduð og deigið bakað í tveimur tertumótum sem eru 28 sm í þvermál. Einnig má baka deigið í ofnskúffu og skera kökurnar síðan út í þá stærð sem óskað er eftir.