Beck’s er einn vinsælasti þýski bjórinn enda bragðgóður og auðdrekkanlegur ljós lagerbjór, svalandi einn og sér en einnig prýðilegur matbjór.
Beck’s hefur frá upphafi verið bruggaður í hafnarborginni Bremen og saga Beck’s Brauerei og heimaborgarinnar hefur verið samtvinnuð í 145 ár. Þann 27.júní árið 1873 komu þar saman þrír framtakssamir menn – byggingameistarinn Lüder Rutenberg, bruggmeistarinn Heinrich Beck and kaupmaðurinn Thomas May – og lögðu grunninn að Kaiserbrauerei Beck’s & May, einni vinsælustu bjórgerð Þýskalands í dag. Svo náin eru tengslin milli brugghúss og borgar að vörumerki Beck’s og skjaldarmerki Bremen eru nánast eins og skarta hvítum lykli á rauðum grunni. Þar er á ferðinni lykill sjálfs Lykla-Péturs, þess hins sama og vaktar Gullna hliðið og hleypir aðeins verðugum inn í Himnaríki. Samlíkingin er hnyttin enda hefur Beck’s bjór alla tíð verið álitinn lykillinn að góðri stund og nú til dags eru um 3000 flöskur af Beck’s opnaðar á hverri mínútu í heiminum.
Heimsókn í brugghúsið er bæði fróðleg og skemmtileg og þar er boðið upp á áhugaverðar skoðunarferðir þar sem bæði er fjallað um sögu brugghússins og einnig farið ítarlega í bjórgerð og sögu brugglistarinnar.