Viskígerðirnar á eyjunni Islay, rétt fyrir utan vesturströnd Skotlands, njóta allnokkurrar sérstöðu meðal skoskra viskía. Bowmore nýtur aftur á móti sérstöðu meðal Islay-viskía; það er nefnilega elsta viskígerðin á eyjunni og vöruhúsið þar sem viskíið fær að dvelja á eikarámum meðan það sefur og nær fullkomnum þroska er hið elsta í heiminum og kallast þar af leiðandi því viðeigandi nafni „The No. 1 Vaults“. Á þessum goðsagnakennda stað hefur Bowmore þroskað sitt viskí í 240 ár, undir vökulu auga viskígerðarmeistara hverrar kynslóðar.
Flest í heiminum hefur tekið breytingum á þessum tíma en enn þann dag í dag eru hráefnin í Bowmore-viskíi aðeins þrjú: vatn, bygg og ger. Vatnið, ferskt og tært, kemur frá ánni Laggan, byggið er ræktað og maltað á eyjunni, og gerið er sömuleiðis ræktað af umhyggju til að tryggja hámarks árangur. Segja má að karakter Islay sé máske fjórða innihaldsefnið og þegar hann bætist við handtökin sem viðhöfð hafa verið allan þann tíma sem Bowmore hefur verið framleitt, er útkoman hið undurljúfa en þó ómótstæðilega móreykta viskí.