Vöru bætt við körfu

Bruichladdich

Bruichladdich

Viskíin sem kennd eru við eyjuna Islay, sem er ein af Hebrides-eyjunum og liggur rétt við vesturströnd Skotlands, hafa löngum notið vinsælda hjá þeim sem kjósa sitt viskí kraftmikið, höfugt og hel-móreykt. Sé að gáð er landslagið engu að síður talsvert fjölbreyttara hvað viskí varðar, ekki síst fyrir tilstilli Bruichladdich þar sem starfsemin einkennist af sköpunarkrafti og tilraunagleði. Það er ekki út í bláinn að gestum viskíhússins mætir risavaxin áprentun þess efnis við komuna inn í portið sem húsakynnin umlykja: Progressive Hebridean Distillers.

Vínkaupmaðurinn Mark Reynier festi kaup á Bruichladdich skömmu fyrir síðustu aldamót og setti fljótlega á laggirnar ákveðin gildi fyrir framleiðsluna. Númer eitt var að byggið væri skoskt. Númer tvö að vínandinn yrði látinn ná þroska á ámum á eyjunni sjálfri, Islay. Þessi tvö prinsippmál hleyptu skoska viskíiðnaðinum í algert uppnám. En okkar maður lét ekki staðar numið þar heldur réðst með látum að tveimur þáttum sem höfðu verið viðhafðir um áratuga skeið til að tryggja ákveðinn stöðugleika í framleiðslu viskís milli ára. Annars vegar svokölluð kaldsíun (e. chill filtering) þar sem viskíið er kælt svo olían í því skilji sig frá. Hún er síðan fjarlægð. Gallinn er að um leið fer mikið af bragðinu með og í súginn. Hitt var viðbæting á litarefninu E150, sem í daglegu tali kallast karamellulitur – sami litur og gerir kóladrykki brúna. Þetta skóp Bruichladdich sess sem hinn óstýriláti utangarðsmaður meðal skoskra viskígerða.

Bruichladdich viskíið hefur allar götur síðan kynnt sig með sama hætti og ef um öndvegis Búrgúndarvín væri að ræða. Í því sambandi skiptir upprunalandsvæðið öllu máli; jarðvegurinn, hæð yfir sjávarmáli, og loftslagið. Kjörorð Bruichladdich er þar af leiðandi „We believe terroir matters.“ Fremstur í flokki lykilstarfsmanna viskíhússins er hinn nánast goðsagnakenndi viskígerðarmaður (master distiller) Jim McEwan. Hann býr að áratuga reynslu og skemmtir sér konunglega við alls konar tilraunastarfsemi. Línan frá Bruichladdich er fyrir bragðið einkar fjölbreytt, allt frá hinu óreykta The Classic Laddie upp í hið mergjaða Port Charlotte sem er gríðarlega reykt og loks Octomore sem er að líkindum hið alreyktasta á markaðnum. Er þá ótalið sjálft krúnudjásnið, The Black Art, sem er himneskt en helst á færi fjársterkra viskíunnenda.

Þó Mark Reynier hafi nú selt Bruichladdich til áfengissamsteypunnar Rémy Cointreau er sýn fyrirtækisins sú sama og andi frumherjans svífur enn yfir vötnum. Ekkert af framleiðslunni fer í viskíblöndur nú til dags heldur er hún öll seld sem einmöltungar í nafni Bruichladdich. Bruichladdich er komið á beinu brautina og er í hópi áhugaverðustu viskígerða Skotlands – og um leið heimsins.

Leitarniðurstöður

Vöru bætt við körfu

Listi uppfærður

Ekki var hægt að uppfæra lista

Ekki næg lagerstaða til fyrir þessa vöru

Ekki næg lagerstaða fyrir vöru:

Staða á lager er

Ekki næg lagerstaða fyrir vöru:

Staða á lager er

Bæta við vörulista

Nýr vörulisti

Vöru bætt við vörulista

Ertu viss um að þú viljir eyða listanum?