Fyrir rúmlega 160 árum – á því herrans ári 1858, nánar tiltekið – ákvað farsæll bandarískur kornkaupmaður að nafni Hiram Walker að freista gæfunnar með því að nýta eitthvað af öllu því korni sem hann höndlaði með í spennandi framleiðslu, í stað þess að selja það allt. Í stuttu máli sagt ákvað hann að stofna viskígerð. Fyrirtækið setti hann á laggirnar í Walkerville, Ontario, af þeirri ástæðu að kornið þar á svæðinu var hreint út sagt framúrskarandi að gæðum. Nærsveitungar þeirra urðu fljótt hrifnir af framleiðslunni og gæðin spurðust út víðar í Kanada.
Sunnan landamæranna í Bandaríkjunum var viskíið aðeins selt í klúbbum heldrimanna á þeim tíma og fékk því fljótlega nafnið „Club Whisky“. Vinsældirnar jukust og loks var svo komið að bandarískir bourbon-framleiðendur voru farnir að finna fyrir vinsældum hins kanadíska keppinautar. Þeir knúðu ríkisstjórnina í Washington að setja lög sem skilyrtu kanadíska framleiðendur til að merkja sína vöru með upprunalandinu – Kanada. Sú aðgerð snerist heldur illilega í höndunum á þeim því Club Whisky breytti nafninu í Canadian Club og varð vinsælla en nokkru sinni fyrr. Það kemur því ekki á óvart að þegar áfengisbannið alræmda gekk í gildi í Bandaríkjunum varð Canadian Club langmest smyglaða viskíið yfir til Bandaríkjanna.
Canadian Club er sérlega aðgengilegt viskí og hentar jafnvel til að drekka eitt og sér, út á ís eða í klassíska viskíkokteila á borð við Manhattan og Old Fashioned.