Corvoisier
Koníak hefur um langan aldur verið sá drykkur sem flestir tengja við gæðastundina að lokinni góðri máltíð. Að láta fara vel um sig og slaka á þegar staðið hefur verið upp frá veisluborðum og tylla sér í betra sæti er athöfn sem hefur getið af sér tvö hugtök; “kaffi og koníak” og “koníaksstofa” – því svart kaffi og lögg af koníaki í belgvíðu glasi er samsetning sem á einkar vel við þegar mýkja á meltinguna á veisluföngunum, og afdrepið til slíkrar iðju er iðulega setustofa samkvæmt hefðinni, með bókahillum og barskáp.
En hvað er svo þetta koníak? Það sem við Íslendingar köllum einu nafni koníak er sterkt, eimað áfengi búið til úr hvítum þrúgum sem fær að þroskast á eikartunnum uns það er klárt til áfyllingar á flösku. Slíkur vökvi heitir með réttu “brandý” en uppruni hans þarf að vera frá nærsveitum frönsku borgarinnar Cognac [les. konjak] til að mega heita einmitt það. Brandý er semsé heiti breiðs flokks brennivíns sem framleiddur er samkvæmt því sem líst er í upphafi málsgreinarinnar, en aðeins smáhluti brandýs er með réttu koníak. Annars er íslenska tökuorðið brandý komið frá enska orðinu brandywine, sem aftur á sinn uppruna í hollenska orðinu brandewijn, sem merkir einfaldlega brennt vín.
Og þar kemur Courvoisier til sögunnar. Emmanuel Courvoisier stofnaði fyrirtækið árið 1809 og náði á skömmum tíma undraverðum árangri í listinni á búa til öndvegis koníak. Svo mjög kvað að hæfileikum hans að fyrsti keisari Frakklands, sjálfur Napóleon Bónaparte, heimsótti hr. Courvoisier og koníaksgerðina árið 1811. Svo mjög hreifst hann af koníakinu að hann gerði heyrinkunnugt að hersveitir sínar, á leiðinni í Napóleonsstríðin, skyldu fá koníak til að hressa upp á móralinn, helst á hverjum morgni. Konunglegar hirðir víða um Evrópu, meðal annars í Englandi, Danmörku og Svíþjóð, ákváðu að Courvoisier yrði að vera á þeirra borðum, og þaðan hefur heldrimannablær umlukið þetta mikla úrvalskoníak.
Eitt að lokum: Cour-voi-sier er borið fram kúr-vúa-sjé. Þá kunnið þið það.