Þegar vínáhugafólk er spurt hvar það telji stærstu og tilkomumestu vínkjallara Evrópu vera staðsetta er líklegt að svarið sé í Frakklandi, á Ítalíu eða þá mögulega á Spáni. Það er auðvitað bæði rökrétt og skiljanleg ályktun enda víngerðarhefðin í þessum löndum aldagömul og alþekkt. Rétta svarið er hins vegar að stærstu vínkjallara álfunnar – og um leið veraldar - er að finna í Austur-Evrópuríkinu Moldóvu.
Byrjum þetta á örstuttri upprifjun; Moldóva er tiltölulega lítið, landlukt land með Rúmeníu til vesturs og Úkraínu til austurs, staðsett Norð-vestur af Svartahafi. Landið var innlimað í Sovétríkin við lok Seinni heimstyrjaldarinnar og losnaði ekki undan þeim yfirráðum fyrr en Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991. Moldóva varð svo sjálfstætt ríki á ný árið 1992, eftir að hafa ýmist verið undir yfirráðum Rússlands, Rúmeníu eða Sovétríkjanna síðan 1812.
Um 15 kílómetra norður af höfuðborginni Kísínev er að finna hina stórfenglegu vínkjallara Cricova, undir samnefndum smábæ með tæplega 10.000 íbúa. Reyndar er varla með réttu hægt að tala um „kjallara“ þar sem um er að ræða gríðarlegt völundarhús af vel skipulögðum göngum, samtals um 120 kíómetra að lengd og 100 metra undir yfirborði jarðar. Kort af þessari stórfenglegu víngeymslu lítur líka út eins og götukort af sæmilegum bæ, með reglulegu og vel útfærðu gatnakerfi.
Þessi neðanjarðarheimur á sér sögu sem nær aftur til 15. aldar þegar hafist var handa við að vinna kalkstein úr jörðu sem notaður var til að byggja höfuðborgina, Kísínev. Með tímanum urðu námurnar að því viðmikla neti neðanjarðarganga sem þær eru í dag. Það var svo í kringum 1950 sem vinna hófst við að breyta námagöngunum í vínkjallara, sem er vel; aðstæður í vínræktunar í Moldóvu eru frábærar og Cricova-kjallarinn er frábært geymslurými, með stöðugu hitastigi við 12°C. Engin manngerð loftræsting er til staðar enda væri hún óþörf; í hellunum undir Cricova hefur skapast fullkomið og sjálfbært loftslag til að geyma vín.
Og þá erum við að komast að kjarna málsins, víninu frá Cricova. Vínekrur fyrirtækisins þekja alls um 600 hektara í nágrenni bæjarins og með áunninni reynslu hefur ræktendum lærst að staðsetja hvert afbrigði vínviðar á réttum stöðum til að hámarka gæði þrúgnanna, með tilliti til jarðvegs, loftslags og annarra staðbundinna aðstæðna. Til að mynda eru Muscat, Pinot Noir, Cabernet, Sauvignon og Merlot þrúgurnar ræktaðar í Cahul-héraði, á meðan tegundir á borð við Pinot, Sauvignon, Rkaţiteli og Aligote eru ræktaðar miðsvæðis í Moldóvu.
Afraksturinn er eftir því afbragðsgóður og vínin frá Cricova hafa borið hróður fyrirtækisins víða um heim, þó Íslendingar eigi upp til hópa eftir að uppgötva vínin frá Moldóvu. Vínáhugafólk sem á Moldóvu eftir, rétt eins og óskrifað blað, á heldur betur gott í vændum!
Í þessu sambandi liggur beint við að benda á rauðvínið Cricova Prestige Codru 2017, framúrskarandi vín úr Cabernet-Sauvignon og Merlot þrúgum. Vín með frábærri byggingu og vel búið af tannínum. Codru-vínið er þroskað í 18 mánuði á eikartunnum áður en það er látið liggja á flöskunni í 3 ár í hinum víðáttumiklu kjöllurum Cricova. Vínið hefur langan flöskutíma framundan, fyrir þá sem vilja geyma og sjá hvert þetta vín getur farið. Í nefi hefur það sæta ávexti, dökk kirsuber, bláber og granatepli, í munni silkimjúk áferð, fyrirtaks fylling og áðurnefnd tannín leyna sér ekki. Þetta vín fer frábærlega með íslensku, jurtakrydduðu lambi, grilluðu fuglakjöti og jafnvel krydduðum sælkerapylsum á platta.
Af hvítvínum má nefna Cricova Prestige Chardonnay 2018 sem verulega áhugaverðan kost. Chardonnay er vissulega vinsælasta hvítvínsþrúga heims en hér er á ferðinni vín sem vert er að gefa gaum því það er bæði hlaðið óvenjulega blómlegum ávaxtakeim og auk þess í kraftmeira lagi, heil 14% að áfengismagni. Liturinn er kunnuglegur unnendum Chardonnay-vína, fallega tært með ljós-strágulum lit en í nefi kveður við annan tón því þar er að finna óvæntan og höfugan keim af ananas og appelsínu. Bragðið er margslungið og fyllingin sérlega góð, um leið og sætur ávaxtakeimurinn gerir vínið líflegt og aðgengilegt. Fullkomið sem fordrykkur, frábært með hvers konar sjávarfangi og algerlega geggjað með foie gras.
Loks verður að nefna Cricova Amplius sem er sérlega spennandi rauðvín, unnið úr handvöldum Merlot-þrúgum og framleitt með „appassimento“ aðferðinni þar sem hluti af þrúgunum er þurrkaður til að framkalla meiri styrk lita, ilms og bragðefna í víninu. Árangurinn lætur ekki á sér standa, vínið er eins og Merlot-vín gerast fallegust, djúp-rúbínrautt með fjólubláum skuggum. Í nefi skógarber í bland við dökk kirsuber og eikartóna enda vínið tunnuþroskað í tvö ár. Bragðið af Amplius er flókin upplifun af þroskuðum plómum og sultuðum sólberjum, vanillu og dökku súkkulaði að ógleymdum eikartónum sem gefa því vigt og eftirbragð. Mikið vín að umfangi, og 2014 árgangurinn er þess virði að skoða vel enda dúndurvín, 16% að áfengismagni, og eins og mörg stór vín fer það einna best með grilluðu rauðu kjöti, villibráð og bragðmiklum ostum. Frábært núna en á eftir að geymast vel og lengi fyrir þá sem geta beðið.