Chardonnay-vín eru kapítuli út af fyrir sig þegar hvítvín er annars vegar. Þau eru að líkindum þau vinsælustu í veröldinni, en þar getur bragðið verið verulega frábrugðið frá einu landi til annars, jafnvel frá einu héraði til annars, og hvað þá ef vínið hefur fengið að þroskast á eik. Chardonnay er nefnilega sú þrúga sem dregur hvað mestan dám af kringumstæðum sínum, ræktunarsvæði sínu og veðurfari. Chardonnay-hvítvín sem koma frá svæðinu Chablis ( lesist „sjablí“ ) í Norðurhluta Búrgúndar-héraðs í Frakklandi eru með þeim allra eftirsóttustu, fyrir afar sérstakar sakir, og í ræktun þeirra er víngerðin Domaine des Malandes á heimavelli.
Margir matgæðingar eru á því að ekkert hvítvín sé eins stórkostlega gott með sjávarfangi og Chablis og það má svo sannarlega til sanns vegar færa. Chablis-hvítvínin eru til að mynda hreint framúrskarandi vín með skelfiski hverskonar, enda rímar bragðið óaðfinnanlega við þess háttar sjávarfang. Ostrur, hörpudiskur og rækjur fara frábærlega með Chablis, einnig krabbi og annars konar fiskur. Vínið passar reyndar líka prýðilega með kjúklingi og salati sömuleiðis en gætið þess bara að best er Chablis þegar það er borið fram svalt, fremur en ískalt.
Þegar framleiðslan frá Domaine des Malandes er skoðuð sést að þarna er á ferðinni víngerð með mikla reynslu af Chablis-framleiðslu; nærfellt öll vínin eru af þessari sérstöku og eftirsóttu tegund. Víngerðin er hefur hinsvegar aldrei lagt áherslu á framleitt magn en þess í stað einblítt á gæði uppskerunnar og framleiðsluaðferðir sem laða fram það besta í þrúgunum. Upphafið má rekja til ársins 1949 þegar hjónin André og Gabrielle Tremblay hófu vínrækt við erfið skilyrði. Dóttir þeirra, Lyne, tók við rekstrinum og ræktuninni árið 1973 og rétti börnum sínum, Richard og Amandine, svo keflið árið 2018 þegar hún sjálf settist í helgan stein. Það er svo til marks um hve smár reksturinn er í sniðum að auk systkinanna starfa aðeins tíu manns í Domaine des Malandes. Þar á meðal er víngerðarmeistarinn Guenole Breteaudeau líklega mikilvægastur. Hæfileikar hans fara ekki á milli mála þegar flaska af Chablis frá Domaine des Malandes er opnuð – og vínið bragðað.