Hver man ekki eftir gósentíð Galliano líkjörsins hér á landi? Á árunum upp úr 1990 varð slíkt æði fyrir kokteil að nafni Hot Shot að barir Reykjavíkur höfðu vart undan að afgreiða hann. Það skipti litlu hvort þú varst rokkari eða rappari, teknótöffari eða diskódís – allir vildu Hot Shot á djamminu. Fyrir þá sem ekki muna þá var drykkurinn lagskipt skot, borinn fram í stóru skotglasi, þar sem Galliano var neðst, þá heitt og nýlagað kaffi, helst espresso, og loks rjómi efst – hver þáttur í sama magni.
Síðan hefur mikið áfengi runnið til sjávar hér á Íslandi og ef til vill tímabært að dusta rykið af Hot Shot og fá sér eitt skot? Allt um það, oft er sagt að Galliano sé í raun samnefnari yfir allt það sem gerir Ítalíu svo dásamlega. Í drykknum fer saman handverk og þolinmæði, ásamt stíl og frjóu ímyndunarafli. Forðum daga varð til uppskrift á Ítalíu að líkjör sem innihélt 30 mismunandi jurtir og grös sem handtína þurfti með þolinmæði og nákvæmni. Frá þeirri uppskrift hefur aldrei verið kvikað enda Galliano oft kallað „Spirito Italiano“.
Í einu skiptin sem nokkur hefur vogað sér að víkja frá upprunalegu uppskriftinni að því sem er í dag Galliano L’Autentico, þá er verið að framleiða hin afbrigðin þrjú sem til eru: Galliano L’Aperitivo, þar sem appelsínutónar eru allsráðandi; Galliano Ristretto sem er kraftmikill kaffilíkjör, og loks Galliano Vanilla, sem væntanlega þarf ekki að útskýra nánar.