Margir tengja orðið „sérrí“ ósjálfrátt við enska orðið „cherry“ enda eru þau keimlík á blaði. Sérrí hefur þó ekkert með kirsuber að gera; þess í stað er drykkurinn búinn til úr ljósum vínberjum. Enska orðið „sherry“ er hinsvegar dregið af spænska nafninu Jerez, en drykkurinn á rætur sínar að rekja til vínræktunarsvæða í nágrenni spænsku borgarinnar Jerez de la Frontera í Andalúsíu. Jerez varð semsagt að „sherry“.
Enskar vinsældir sérrís tengjast einna helst því er Francis Drake, sá víðfrægi sæfari og flotaforingi, sigraði spænsku borgina Càdiz árið 1587. Càdiz var með mikilvægari hafnarborgum Spánar og þar lágu við festar drekkhlaðin skip tilbúin að leggja í hann til innrásar í England. Drake var hins vegar fyrri til og hafði fullnaðarsigur. Hann gereyðilagði spænska flotann þegar hann hafði hirt farm skipanna og þar á meðal voru 2900 tunnur af sérríi – eitt merkasta herfang hans – og í kjölfarið sló sérrí í gegn um gervallt England. Var það bæði vegna þess að sérrí var jú óneitanlega drykkur sigurvegarans en ekki síður því það var svo skrambi gott, að Englendingum fannst.
Allar götur síðan hefur sérrí haft yfir sér áru fágunar og séntilmennsku, drykkur þeirra sem kunna gott að meta og temja sér hófmennsku og heldrimanna stíl. Enda er ekki út í bláinn að þeir bræður og góðkunningjar íslenskra sjónvarpsáhorfenda, Frasier og Niles Crane, ræddu jafnan lífsins gátur, gagn og nauðsynjar yfir sérrítári. Það kom ekkert annað til greina þar. Hitt er annað mál að sérrí batnar ekki með tímanum þegar það hefur á annað borð verið sett á flösku. Það geymist takmarkað og þess ber því að njóta fljótlega eftir opnun. Geymið sérrí á köldum og dimmum stað og látið flöskuna standa, því það lágmarkar snertingu vökvans við loft.