Víngerð stendur á gömlum merg í Kaliforníu og á Mount Vedeer í hinum nafntogaða dal sem kenndur er við Napa hefur vínviður verið ræktaður síðan seint á 19. öld. Saga Hess Collection víngerðarinnar hefst hins vegar fyrir alvöru árið 1978 þegar hinn svissneski Donald Hess festir fyrst kaup á landskika á áðurnefndu Mount Vedeer. Hess hafði skýrar hugmyndir allt frá upphafi um það hvernig hann hygðist rækta landið og þó hafi þótt heldur framúrstefnulegt á sínum tíma – „við nærum landið og hlúum að því að sama skapi og við nýtum það“ – þá er nálgun Hess víngerðarinnar nokkurn veginn eins og flestir vilja reka vínekru í dag; í sátt og samlyndi við landið og náttúruna.
Það sem áðurnefndur Donald Hess kom auga á þegar hann átti leið um Mount Vedeer í Napa-dalnum var að vínekrurnar í hæðum þessa hæðótta landslags höfðu til að bera fullkomna blöndu heppilegs jarðvegs og loftslags til að rækta þrúgur svo hvert og eitt afbrigði, með öllum sínum einkennum og bragðtónum, fengið notið sín til fulls. Í hinum bröttu hlíðum fjallsins njóta þrúgurnar síðdegissvalans þegar hafgolan skríður inn í landið með svalt sjávarloft meðferðis. Aftur á móti eru næturnar hlýjar og þetta sérstaka samspil dags og nætur, hlýju og svala, skapar þrúgunum sem ræktaðar eru í hlíðum Mount Vedeer einstakan karakter. Þannig öðlaðist Donald fljótlega skilning á því hvernig “terroir” – jarðvegur, veðurfar, loftslag og hæð fyrir sjávarmáli – hefur úrslitaáhrif á útkomuna þegar víngerð er annars vegar.
Víngerðin er opin almenningi til heimsókna og tekur á móti fjölda fólks á ári hverju við rífandi undirtektir, eins og lofsamlegar umsagnir á Tripadvisor eru til marks um. Hægt er að koma í skoðunarferðir, smökkunarferðir, margvíslegar sælkeraheimsóknir þar sem vínin eru pöruð við sælkeramat sem eldaður er á staðnum, súkkulaði, osta og ýmist annað góðgæti.