Þegar nokkrir framtakssamir klausturmunkar í belgíska þorpinu Hoegaarden (borið fram Hú-garden) tóku sig til árið 1445 og hófu að gera tilraunir með hveitibjórgerð þá gerðu þeir sér ábyggilega enga grein fyrir því að þeir væru í þann mund að skapa alveg nýjan bjórstíl. Þeir voru semsé frumherjar í bruggun hveitibjórs eða weissbier. Ekki munu fyrstu tilraunir þeirra hafa verið neitt sérstakar, að því er heimildir herma, en þegar munkarnir prófuðu að milda bragðið með jurtum og öðrum bragðgjöfum sem þeir höfðu aðgang að gerðist eitthvað. Þeir bættu við appelsínuberki og kóríander og viti menn, restina af þeirri sögu þekkja bjórunnendur um allan heim. Bjórinn varð fljótlega geysivinsæll og er enn þann dag í dag bruggaður eftir aldagamalli uppskrift, og enn er bjórinn tvígerjaður en ósíaður sem gefur honum hálfskýjaðan lit og silkimjúka áferð.
Eins og gengur með bragðmikla hveitibjóra er best að njóta Hoegaarden þegar hann er ískaldur. Vitaskuld fer best á því að hella bjórnum í ekta Hoegaarden-glas, sem er úr sérstaklega þykku gleri til að bjórinn haldist lengur kaldur og helst er mælt með því að geyma glasið í frysti um stund áður en bjórnum er hellt í glasið. Þegar flaskan hefur verið opnuð er eftirfarandi háttur hafður á hellingunni: hellið 2/3 af bjórnum í glasið og hallið því í 45° til að halda froðunni í skefjum. Veltið síðasta þriðjungnum af bjór sem eftir er í flöskunni í nokkra hringi til að losa um botnfallið sem sest hefur meðan bjórinn stóð á hillu og hellið svo í glasið. Aðeins þannig fær maður notið bragðsins af Hoegaarden til fullnustu.
Að lokum má benda á mat sem fer sérstaklega vel með hrímköldu glasi af Hoegaarden. Þar sem kryddin í bjórnum lækka vel rostann í sterkum pipar og öðru álíka þá fer hann sérlega vel með sterkum indverskum og tælenskum mat, en hentar líka með mildari mat á borð við kjúklingasalöt, fisk, skelfisk og hvers konar létta rétti. Hoegaarden á eiginlega alltaf við.