Það er ólíklegt að fyrirfinnist viskí sem skiptir fólki jafn rækilega í tvær fylkingar og hið dúndrandi kraftmikla Laphroaig [la-froyg]. Þegar fólk er lengra komið í heimi öndvegisviskía þá leitar það oft í hin kraftmiklu eyjaviskí, sem svo eru jafnan nefnd, frá Islay. Þaðan koma nefnilega mörg rækilega móreykt og bragðmikil viskí. Slíkur drykkur er ekki allra, fjarri því, en ef þið náið saman á annað borð, þú og Laphroaig, þá er ljóst að stofnað hefur verið til sambands fyrir lífstíð.
Þegar reynslumiklir smakkarar reyna lögg af Laphroaig er ekki óalgengt að meðal kommenta um bragðtóna séu „reykur, salt, tjara, blautur plástur, joð, fjara og þari, spítalalykt“ en þar er mannskapurinn bara að reyna að lýsa bragðinu sem býr í vel móreyktu viskíi. Enginn skyldi heldur ímynda sér annað en að viskíið sé frábært, því í reynd er það í hópi þeirra allra bestu. Of langt mál yrði að telja upp öll þau verðlaun og viðurkenningar sem það hefur fengið í viskíkeppnum á alþjóðavettvangi, en látum ein þau nýjustu fylgja með: í hinu nýútkomna viskí-uppflettiriti Jim Murray’s Whisky Bible 2019 er Laphroaig 10 Years sæmt verðlaunatitlinum „Best Single Malt Scotch 10 Years & Under“.