Ákavíti er brennt vín, unnið úr korni eða kartöflum, ekki ósvipað og gert er við framleiðslu á vodka. Að eimingu lokinni er ákavíti hinsvegar bragðbætt með jurtum og kryddi, og skandinavískt ákavíti verður reglum samkvæmt að fela í sér annað hvort bragð af kúmeni eða dilli. Litur þess er oftast gullinbrúnleitur og helgast af því að það er látið þroskast á eikartunnum. Einnig er ákavíti til glært, þá kallað taffel, en þá hefur það legið á eldri tunnum sem láta ekki lengur lit.
Norska „Linie“ ákavítið frá Lysholm hefur skemmtilega sérstöðu til að bera, borið saman við önnur ákavíti. Nafnið er dregið af miðbaugslínunni og ber ákavítið þetta nafn því áður en það er sett á flösku er vökvanum hellt á sérrítunnur og þeim svo siglt suður fyrir Miðbauginn, alla leið til Ástralíu, og aftur til baka. Þetta hefur tíðkast hjá Lysholm í meira en 200 ár því fyrsta ákavítis-siglingin var farið árið 1805. Hugsunin að baki uppátækinu er sú að ákavítið sé stöðugt á hreyfingu í þann tíma sem siglingin tekur, komist í snertingu við mismunandi hitastig og mishátt rakastig.
Allt þetta stuðlar að því að vínandinn drekkur í sig meira bragð af viðnum í tunnunum og þroskast því enn hraðar og meira en ella. Þar af leiðir að Linie ákavítið frá Lysholm er einkar fallega gullinbrúnt á litinn og nafnið dregur það af miðbaugslínunni, en hver einasti dropi sem settur er á flösku sem Linie Aquavit hefur tvívegis siglt yfir Miðbauginn.