Rétt eins og Skotland er álitið „gamla landið“ þegar kemur að viskígerð þá er Japan stundum kallað „nýi heimurinn“ í þessu sambandi, enda hefðin þar í landi ekki jafn gömul. Engu að síður er hún eldri en margan gæti grunað og saga japansks viskís nær rúmlega 100 ár aftur í tímann, til þeirra daga þegar maðurinn sem kalla mætti faðir hins japanska viskís hóf vegferð sína. Maðurinn hét Masataka Taketsuru (1894-1979) og það var einmitt hann sem stofnaði Nikka Whisky.
Hr. Taketsuru átti þess kost að fara til Skotlands til náms og hann var ekki í vafa um hvað hann vildi læra þar í landi. Til að byrja með nam hann efnafræði við Glasgow-háskóla til að læra helstu undirstöðurnar og svo var komið að því sem hugur hans stóð raunverulega til. Hann dvaldi um skeið í þremur mismunandi viskígerðum í Skotlandi, fyllti heilu minnisbækurnar af glósum, góðum punktum og gagnlegum athugasemdum, og hélt svo heim til að búa til japanskt viskí sem jafnaðist á við það besta frá Skotlandi.
Velgengni Nikka vískís og annarra japanskra tegunda sýna svo um munar að hr. Taketsuru tókst ætlunarverk sitt. Nikka viskí er gríðarlega hátt skrifað í heimi viskíunnenda og meira segja móreykta viskíið frá Nikka jafnast á við það sem ljúffengast fyrirfinnst frá Islay.