Ítalska vínhúsið Nino Negri á sér langa sögu enda má rekja upphaf þess til ársins 1987 þegar samnefndur hr. Negri giftist Ameliu Galli og þau ákváðu um leið að hefja ræktun og framleiðslu víns.
Í dag er fyrirtækið sem Nino Negri stofnaði forðum orðið hluti af samsteypunni Gruppo Italiano Vini. Það framleiðir bæði rauðvín, hvítvín, freyðivín og eigið afbrigði af Grappa hratvíni og er í dag meðal krúnudjásna G.I.V. samsteypunnar.
Nino Negri telst meðal þeirra vínframleiðenda í Valtellina-héraðinu í Lombardíu (eða Langbarðalandi eins og landshlutinn í Norður-Ítalíu kringum Mílanó heitir líka á íslensku) sem bestum tökum hefur náð á því að blanda saman gömlum hefðum og nútíma tækni. Mottó fyrirtækisins er líka á þessa leið: „Enduruppgötvum hefðina – og bætum hana“.
Í vínkjallara Nino Negri er að finna 1500 franskar og amerískar eikarámur í bland við hátæknilega stáltanka þar sem gerjun vínsins fer fram undir vökulu auga tæknimanna. Meðal nýjunga sem eru í farvatninu eru ný afbrigði af hinni sérstöku ítölsku þrúgu Nebbiolo.
Valtellina-vínræktunarsvæðið er rétt norður af Como-vatni, í Sondrio-héraði, í skjóli gríðarmikilla fjallgarða í norðri. Í dalverpinu þar sem vínviðurinn vex nýtur sólar frá morgni til kvölds og það skilar sér í hin karakterríku vín Nino Negri.